ForntextaSkrifarinn
Kristín Þorgrímsdóttir

www.mmedia.is/anno 
anno@mmedia.is
 
sími: 861 5443

Svanhvít og Elfa

Hópurinn 2006

 

Kíktu líka á endurvakningar-fróðleiksmolana !

Forsíða 

Um mig
Þátttaka í endurvakningu
Nýjustu fréttir
 

Forntextaskriftir  
Kennsluefni
 

Námskeið
 &  Vinnubúðir
Atriðaorðaskrá
 
Tenglar
 

Myndasafn
I   Forntextaverk 
II  Nútímaleg verk 
III 
Sögulegt handverk  
IV
Miniaturar 

Sölustaðir  
Verslanir

Markaðir  &  Sýningar

Sögulegt handverk
Örnámskeið (væntanleg)

Handverk barna
 

Senda tölvupóst

English  (due soon)
Please e-mail if you have 
some questions.

 

Þátttaka í endurvakningu miðaldahátta

Hér á landi er fjöldi einstaklinga sem hefur áhuga á að endurvekja ýmsa hætti miðalda - sjálfum sér og öðrum til skemmtunar. 

Sumir vinna einir, aðrir í hópum, flestum lítt skipulögðum. Til eru hópar sem sérhæfa sig í bardagaíþróttum og aðrir sem sérhæfa sig í söng og leik, og loks eru sprotar af nokkrum hópum handverksaðila hér og þar um landið. 

Flestir endurvekjendur eru einungis sýnilegir almenningi yfir sumartímann, sumir eina og eina helgi, aðrir eru virkari og láta sjá sig oftar.

Fáeinir endurvekjendur fást til að halda erindi um "sínar ær og kýr", aðrir láta sér duga að sýsla einir við sitt og hægja þannig á tímanum um stund. 

 

 

SKE - hópurinn

Ég er í handverkshópnum SKE (Svanhvít-Elfa-Kristín), en hann hóf starfsemi haustið 2006 og hefur síðan þá verið duglegur að hittast á mánudagskvöldum og vinna í handverki af ýmsu tagi. 

Við lærum saman, kennum hver annarri og höfum virkilega gaman af bæði handverki og öðru sem er á dagskrá hverju sinni. Auk handverks höfum við lært að ákalla höfuðöflin og kynnst heitsteinanuddi. 

 

        

>>> Meira um vinnu SKE hópsins

 

Miðaldahátíðir
Ég hef sótt talsvert í þátttöku á miðaldahátíðum og hef frá upphafi leitast við að koma mér upp leikmynd til að gefa gestum og gangandi innsýn í vinnuaðstöðu skrifara og lýsara á miðöldum. 
Mér tókst að smita Elfu og Svanhvíti af bakteríunni og þær hafa tekið þátt í miðaldahátíðum með mér nokkrum sinnum. 

Leifshátíð í Dölunum
Dalamenn hafa haldið fjölskylduhátíð undanfarin ár og reynt að gera hana að eins konar miðaldahátíð. Hún er því miður ekki svipur hjá sjón nú orðið miðað við það sem hún var fyrir nokkrum árum þegar góður og lifandi markaður var settur upp, þátttakendur sýndu vinnulag og fleira áhugavert. Mig minnir að þetta hafi verið 2002. Síðan hefur ekki mikið gerst til batnaðar.

Ég tók þátt 2005 ásamt Svanhvíti og Steinunni Eiríksdóttur, frábærri tréútskurðarkonu úr Borgarfirði, tengdamóður Elfu. Með okkur voru líka dóttir Elfu, Katrín og frænkur hennar Stella Dögg og Drífa. Elfa var fjarri góðu gamni, upptekin við annan starfa.
Veðurguðirnir voru okkur ekki hliðhollir það árið og hallærislega nútíma-partý-tjaldið okkar tókst á loft í einni vindhviðunni sem gekk yfir. Grindin bókstaflega krullaðist saman (engar ýkjur) þegar þessi nýrstárlegi flugdreki lenti fremur ótígulega á jörðinni. Þáverandi sveitarstjóri bauð okkur að setja upp bás í veitingatjaldi Dalamanna og tókum við því boði fegins hendi. 

Á Leifshátíð sumarið 2006 tókum við enga sjensa með veður og fengum að vera aftur í veitinga- og samkomutjaldi Dalamanna, ásamt öðru góðu fólki.

Miðaldadagar að Gásum við Eyjafjörð
Gásir eru einn elsti þekkti verslunarstaður á Íslandi. Þar hafa verið margviðraðar hugmyndir um uppbyggingu. Fáein síðustu ár hafa þar þó aðeins verið haldnir svo kallaðir miðaldadagar, sem Gásahópurinn, handverksfólk úr firðinum og nágrenni, hefur í raun gert mögulega.

Sumarið 2005 fór ég að Gásum til að vera með á miðaldadegi. Ég hafði kíkt sem gestur 2004 og var spennt fyrir því að taka þátt í að skapa þar meira líf, eins og mér skildist að væru uppi hugmyndir um að gera. 
Hlýjar og vinalega móttökur Gásahóps eru mér eiginlega hvað minnisstæðastar frá þessum degi. Meðferðis hafði ég fyrirferðarmikla leikmynd mína og fékk dygga aðstoð frá öðrum endurvekjendum við að koma henni á tjaldsvæðið þar sem mín beið tilbúið tjald undir dótið mitt. 
Gestirnir sem komu í tjaldið voru frábærir, mjög áhugasamir um sögu og muni handverksins sem ég var að sýna. Ég man ekki eftir öðrum eins áhuga gesta á básnum mínum hérlendis. 

Ég sá mér því miður ekki fært að vera með árið 2006, en kíkti sem gestur stutta stund og varð fyrir vonbrigðum að sjá að hinar góðu hugmyndir sem höfðu verið uppi árið áður voru að mestu horfnar. Í staðinn hafði verið keyptur inn danskur hópur með furðulega fallbyssu (!) og plasthálsfestar.

Raunar skilst mér að enn sé ekki öll von úti enn. Minjasafnið á Akureyri, sem hefur veg og vanda að uppbyggingu að Gásum, hefur fengið góða styrki og stefnan er að byggja eins konar tilgátuþorp á staðnum.

Gásahópurinn, fólkið sem raunverulega sér um að skapa lífið, klæði og muni fyrir staðinn, hlýtur þá að fara að fá laun fyrir sína vinnu.

 

Sólstöðuhátíðin í Hafnarfirði

Jóhannes í Fjörukránni í Hafnarfirði hefur í áraraðir haldið hátíð þar út frá tíma víkinga. Ég fór ekki í ár, en í fyrra kíkti ég sem gestur. Þar mátti þá berja augum massa af erlendum “víkingum” og “valkyrjum”, bæði innan bardagavallar og á handverkssvæði. Mjög fáir íslenskir handverksaðilar voru á staðnum. Sorglegt.

Ég tók þátt í hátíðinni 2003, við sterkan vind af sjónum og mikinn kulda. Elfa kom með sem þrællinn minn og mamma m.a.s. leysti hana af einn daginn. Ég náði að skoða allt svæðið og fannst svo skemmtilegt að taka þátt að mér var nokkuð sama þótt ég hefði ekki náð að selja til að hafa fyrir kostnaði. Við Elfa vorum báðar veikar í viku á eftir, enda skykkjulausar og kaldar mestalla hátíðina. 

Árið 2004 ætlaði ég að vera með aftur og bæta um betur á básnum mínum, bæði með fólki, leikmynd og vöruúrvali. Markmiðið var að skapa meira líf og koma með fleira fólk inn í myndina.  
Þegar liðið mitt mætti á staðinn var hins vegar ekki fúin spýta eftir í bás undir herlegheitin – einhver misskilningur í gangi þar. Ég reiddist auðvitað, en var þá bara gerð útlæg úr þessu litla konungsríki - og það með skít og skömm. Ferlega svekkjandi, mest þó barnanna vegna. Ég hafði lofað að þau fengju að vera með þetta árið og höfðu þau fengið búninga af því tilefni. Ég varð því að brjóta odd af oflæti mínu og stelast með þau inn á svæðið svo þau sæju síður hve illa Kristínu frænku leið í raun og veru. Um leið bar ég smurt brauð og kaffi til hinna sem ég hafði jú platað út í þetta “með mér”. 

Börnin hafa sem betur fer síðan fengið að viðra flottu búningana sína á Leifshátíð og eitt þeirra með mér á Hrafnagili. Dásamlegt að sjá hve börn eru fljót að fyrirgefa.

 

European Medieval Festival

Fyrsta miðaldahátíðin sem ég tók þátt í var hin árlega evrópska miðaldahátíð í Horsens, Danmörku, sumarið 2002. Fólk kemur þangað víða að úr Evrópu, bæði þátttakendur og gestir.

Elísabet vinkona mín kom frá Noregi til að hjálpa mér á básnum – sem betur fer því brjálað var að gera. Ditta, systurdóttir mín sem er búsett í Horsens, aðstoðaði líka öðru hvoru, en samt hrukku kraftar okkar ekki til er á reyndi. Þetta var alvöru hátíð; um 20 þúsund gestir komu á hátíðarsvæðið það árið. 
Íslenskir gestir komu víða að og skrifuðu flestir í bókfells-gestabókina mína. Danir voru hreinlega brjálaðir í bókina, en of mikið var að gera á básnum við sögumiðlun, áhalda- og efnissýningar, svo og auðvitað tilraunir til sölu á forntextaverkunum mínum, fyrir aðeins tvær og hálfa manneskju til að hægt væri að sinna líka kennslu á fjaðrapenna og skrifum í gestabók. Hún var því tekin úr augsýn, en dregin fram fyrir Íslendinga og stöku áhugamann um handrit og skriftir.

Það rigndi rosalega helgina sem hátíðin stóð yfir. Aðrir skrifarar sem höfðu lofað þátttöku í hátíðinni létu ekki sjá sig, en við Íslendingarnir létum veðrið ekki aftra okkur og stóðum okkar plikt.

Vegna anna sáum við Elísabet ekki nema sáralítið brot af hátíðarsvæðinu og bara þeim hluta sem var næst okkar bás þegar við skutumst eftir myrkur í endurvarpi logandi kyndla yfir polla og aur til að kaupa mat og drykki eða á ljóslausa kamrana. Ditta tók myndirnar “þarna úti” sem hér sjást. Við Elísabet urðum að láta okkur nægja upplifun af tónlist og söng, hrópum og köllum, og furðulegum lyktum héðan og þaðan af hátíðarsvæðinu.

Ég fékk boð um að vera aftur með 2003 en varð því miður að afþakka. Það er allt of mikið fyrir eina manneskju að standa undir kostnaði.

 

Ráð og ábendingar

Ég ráðlegg þeim sem ætla að taka þátt í hátíðum erlendis að fara nokkrir saman. Þá er bæði hægt að dreifa kostnaði og fara frá bási sínum til að skoða svæðið á meðan aðrir líta eftir munum ykkar. Eftir á að hyggja finnst mér ferlega súrt í broti að hafa ekki haft tækifæri til að ganga um svæði og skoða og læra af öðrum endurvekjendum. 

 

Hér á landi er bráð-nauðsynlegt að eiga tjald og búnað í það, a.m.k. borð og stóla, enda ekki hægt að stóla á að hátíðarhaldarar skaffi þannig hluti.

Mér finnst stórmerkilegt að þeir sem skipuleggja og halda hátíðir af þessu tagi hér á landi skuli ætlast til þess að einstakir þátttakendur leggi bæði til tjaldbúðir og ólaunaða vinnu við að skemmta gestum þeirra. 

Engum hátíðarhaldara dettur í hug að bjóða handverksaðilum upp á laun eða prósentur af aðgangseyri - en þó erum við lífið á staðnum, fólkið sem miðlar sögunni og sýnir vinnubrögð og muni. Án okkar væri hátíð ekki upp á marga fiska. 

Tja, auðvitað er hægt að halda áfram að kaupa til landsins erlenda skemmtikrafta í bardaga-at, leik og söng, en hver verður þá framtíð þessarar tegundar af skemmtun hér á landi...? 

 

Finnst Íslendingum þeir ekki eiga nógu spennandi sögu sjálfir til að "selja"?

 

 

SSF – Samtök um sögutengda ferðaþjónustu
Í fyrra (2006) voru stofnuð Samtök um sögutengda ferðaþjónustu (SSF), en helsti tilgangur þeirra er...: 

…að vera samvinnu- og samráðsvettvangur þeirra er stunda sögutengda ferðaþjónustu á Íslandi. Auk þess er markmiðið að auka samvinnu í kynningarmálum, gæðamálum og stuðla að aukinni fagmennsku. Samtökin leggja í fyrstu áherslu á arfleifð íslenskra miðaldabókmennta, fyrstu aldir Íslandsbyggðar og miðaldamenningu, þ.e. tímabilið frá landnámi og fram um 1300...
 

 

Ég hef ekki gengið í samtökin, sem mér skilst að séu fremur fyrir fyrirtæki og stofnanir heldur en einstaklinga í endurvakningunni sjálfri. Ég hef þó fylgst með úr fjarlægð, spennt að sjá hvað verður úr hinum merkilegu hugmyndum sem eru uppi. 

Meðlimir SSF, sem eru yfir 20, víðs vegar af landinu, stefna að því að halda sameiginlega söguhátíð hér á landi sumarið 2008. Mér er ekki kunnugt um hver áherslan á þessari hátíð verður, en ef hún verður eitthvað nálægt yfirlýstum tilgangi samtakanna þá má gera ráð fyrir að hún verði a.m.k. á tímabilið frá landnámi og fram um 1300 - en hvort áherslan verði á víkinga, bardaga og blóðsúthellingar eða daglegt líf minna áberandi miðaldafólks er alls óvíst. Ég gef mér þó að hún eigi að vera á ÍSLENSKA sögu. 

 

Betur má ef duga skal...

Metnaðarleysi og mismunun
Hingað til hefur lítið sem ekkert verið lagt upp úr því að hafa vandaða og viðeigandi handverksmarkaði á hinum svo kölluðu miðaldahátíðum hér á landi. Metnaður virðist enginn! 
Auk þess eru Íslendingar ávallt í miklum minnihluta meðal þátttakenda. Heldur leiðinleg staðreynd það og ég er sannfærð um að hún komi til af því að hátíðarhaldarar ætlast til þess að íslenskir handverksaðilar komi endurgjaldslaust til þátttöku, á meðan erlendir aðilar fá kostnað sinn endurgreiddan og jafnvel laun í vasann. Þessa mismunun þarf að laga - og það fljótt ef á að takast að halda íslenskum endurvekjendum inni í myndinni!

Mission Impossible
Mín reynsla er sú, að flestir - ef ekki allir - íslenskir hátíðarhaldarar séu haldnir sjálfs-eyðileggjandi ranghugmyndum um að handverksaðilar græði stórlega á þátttöku í miðaldahátíðum. Þeir telja, jú, að við getum gott nok komið endurgjaldslaust til þátttöku... og gefið í skyn að við ættum jafnvel fremur að þakka fyrir að fá að koma og setja upp bása á hátíðum...


Þvert á ranghugmyndir hátíðarhaldara er reyndin sú að langmest vinna íslenskra handverksaðila á miðaldahátíðum  er fólgin í miðlun sögu og sýningum á efni og aðferðum – en ekki sölu eigin handverksmuna. Þeir sem virkilega kunna á sitt handverk og vilja og geta miðlað því standa miklu fremur í sýningum og miðlun en sölu muna. 
Hvernig ætti sala að geta verið góð þegar handverksaðilar hafa sárafáa muni framleidda og til sölu hverju sinni...!? 
Það
á aftur sínar skýringar. Persónulega eyði ég t.d. ekki lengur miklum tíma frá annarri vinnu til að undirbúa þátttöku og framleiða muni fyrir hátíðir, hvað þá set fjármagn í hráefniskaup þegar ég get ekki stólað á að hátíð sé það vel skipulögð og vönduð að fólk láti sér detta í hug að versla á henni...
Nú, svo mætti benda á að aðal markhópurinn á hátíðum eru börnin - og ekki koma þau með úttroðnar buddur á staðinn. 
Nei, auðvitað vinnur maður frekar það sem gefur peninga, vinnuna sína, en reynir að koma út með sem minnstum fjárhagslegum skaða eftir þátttöku í miðaldahátíðum. Gestir hátíðar fá sína skemmtun og fræðslu eftir sem áður, nú og hátíðarhaldarar væntanlega hagnað af aðgangseyri gestanna - ef þeir hafa vit á því sem þeir eru að gera...

Erlendir þátttakendur eru mun duglegri en Íslendingar í sölu heldur en miðlun af nokkru tagi. Tungumálaörðugleikar gætu verið hluti skýringar... Einstaka erlendur þátttakandi miðlar þó fróðleik um handverk sitt ef spurður, en flestir þegja þunnu hljóði og sitja jafnvel súrir á svip á básum sínum. Ég kann ekki skýringu á þessu gleðileysi.

Íslenskir handverksaðilar fara oft langar vegalengdir með allt sitt hafurtask sem einu sýningargripi viðkomandi hátíðar og taka jafnframt að sér að vera skemmtikraftar (eða í raun sýningargripirnir sjálfir) án þess að fá svo mikið sem þakkir fyrir það, hvað þá beinharða peninga.
Við þurfum að verða okkur úti um dýra búninga og fylgihluti, jafnvel tjöld yfir höfuðið á okkur og sum hver útbúa líka leikmynd í kringum handverk sitt. Flesta þessa hluti þarf að auki að endurnýja með nokkurra ára millibili, enda forgengilegir. 

Nú, svo eru endurvekjendur á sumum stöðum á landinu skikkaðir í "sjálfboðaliðastörf" af ýmsu tagi, utan sem innan tíma hátíða! Ég hvet slíka "sjálfboðaliða" til að stöðva þá þróun hið bráðasta og láta ekki bjóða sér aðra eins fásinnu.

Það verður spennandi að sjá hvort af hátíð SSF verður 2008 og þá hvort samtökin sjái hag sinn og sóma í því að fá íslenska handverksaðila til að vera með gegn gjaldi eður ei.

Kannski það gerist bara með kjána eins og mig að svekkjast yfir fölskum tónum og hægagangi mála í endurvakningu - eða gefast upp á þátttöku, eins og ég er í raun að gera. Hvað um það, fórnarkostnaðurinn hefur verið ærinn og ég loks að meðtaka að það mun seint borga sig fyrir handverksfólk að taka þátt í endurvakningar-hátíðum hér á landi. 

Gagngerar breytingar á stjórn og skipulagi eru trúlega ekki nóg, en mér sýnist þurfa að koma til hugarfarsbreytingar og samtakamáttur hjá endurvekjendum sjálfum ef egg eiga að klekjast út í stað þess að verða fúlegg...........

Við eigum ekki að þurfa að leggja extra-vinnu á okkur eftir hátíð til að geta rétt úr kútnum eftir þátttöku í miðaldahátíðum. Við eigum heldur ekki að þurfa að gefa vinnu okkar eða færa fórnir til að fá að vera með.

Krefjumst launa! Sameinumst um að skapa farveg sem er vænlegur til framfara í þessari skemmtilegu sýslan. 

(þessu erindi er ekki lokið, ég bara nenni ekki lengur...)

 

Handverkshátíðin á Hrafnagili
Dórothea Jónsdóttir á www.listalind.is tók að sér framkvæmdastjórn Handverkshátíðarinnar í Hrafnagili árið 2006 og hefur síðan staðið fyrir gríðarlega miklum og góðum breytingum á henni. 
Hún setti m.a. upp vinnusvæði í stærðar tjaldi og bauð mér að vera með þar ásamt um 30 öðrum handverksaðilum 2006 og aftur í ár, 2007, en þá vorum við eitthvað færri. Öll vorum við að vinna á básum okkar og sýndum gestum og gangandi vinnubrögð og svöruðum spurningum. 

Ég er talsvert spennt fyrir að vera aftur með 2008, því stefnt er að því að hafa þema sem mitt handverk passar sérlega vel inn í - miðaldir. Það verður spennandi að sjá hvort af þessu verður ef nýr framkvæmdastjóri tekur við.

>>> Fylgist með hver stefnan verður 2008

 

LJÓSMYNDIR

2007
Heimsókn í DUBLINIA
miðalda- og víkingasafnið í Dublin

2007
Heimsókn í Trinity College í Dublin
til að skoða The Book of Kells

(myndataka ekki leyfð, en ég set í staðinn verk í sama stíl)

2007
Handverks- og uppskeruhátíðin
í Hrafnagili, Eyjafirði

2006
Handverks- og uppskeruhátíðin
í Hrafnagili, Eyjafirði

Leifshátíð í Dölunum

2005
Miðaldadagur á Gásum
við Eyjafjörð

Leifshátíð í Dölunum

2004
Sólstöðuhátíðin við Fjörukránna 
í Hafnarfirði

2003
Sólstöðuhátíðin við Fjörukránna 
í Hafnarfirði

2002
Evrópska miðaldahátíðin
í Horsens, Danmörku