ForntextaSkrifarinn
Kristín Þorgrímsdóttir

 

 

www.mmedia.is/anno

anno@mmedia.is

sími: 861 5443

 

 

 

 

 

Forsíða

Um mig

Þátttaka í endurvakningu

Nýjustu fréttir 

 

Forntextaskriftir  

Kennsluefni 

Námskeið  

Vinnubúðir

Atriðaorðaskrá 
Tenglar

 

Myndasafn

I   Forntextaverk

II  Nútímaleg verk

III Sögulegt handverk  

IV Miniaturar

 

Sölustaðir  

Verslanir

Markaðir

 

Sögulegt handverk

Örnámskeið (væntanleg)

Handverk barna

 

Senda tölvupóst

 

English  (due soon)

Please e-mail if you have 

some questions.

 

Miðaldahandrit

(í vinnslu)

 

Íslensk miðaldahandrit

Brot úr bókmenntasögu Íslendinga á miðöldum

(textann vann ég að mestu upp úr bæklingum frá Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi)

 

Ritlistin er talin hafa borist til Íslands með kristnum lærdómsmönnum frá Bretlandi um Vestur-Noreg eftir kristnitöku árið 1000. Þá bárust til landsins trúarrit á skinni með latínutexta, en latína var þá ritmál hinnar valdamiklu kaþólsku kirkju í Evrópu og grundvöllur þess að hægt væri að breiða út hin kristnu fræði.

Á Íslandi skrifuðu menn hins vegar fljótt á norrænu og síðar á íslensku, en Íslendingar voru með fyrstu þjóðum í Evrópu til að skrifa á eigin þjóðtungu.

 

Meðal elstu rita sem sögulegar heimildir geta um að hafi verið skrifuð á tungu landsins voru þýðingar helgar, sem talið er að hafi verið predikanir eða skýringar og útleggingar texta úr helgiritum á latínu. Íslenska hómilíubókin kann að varðveita einhverja elstu þessara texta.

 

Íslendingar kynntust ýmsum erlendum ritum, m.a. alfræðiritum, og tóku upp í rit sín texta úr mörgum þeirra, en einnig settu þeir saman ýmsa texta sjálfir.

 

Velflest þeirra handrita sem vitað er að gerð voru í upphafi ritaldar á Íslandi eru nú glötuð og aðeins til í afskriftum frá síðari öldum. Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar, sem rituð var á árunum 1122-1133, er t.d. aðeins til í afskriftum, en hún segir frá uppruna landsmanna og stjórnskipan. Heimildagildi þeirrar bókar er talið meira en Landnámu, sem sett var saman um svipað leyti, en hún er einnig aðeins til í síðari tíma afskriftum.

 

Um 1125-1175 ritaði vel menntaður Íslendingur fyrstu málfræðiritgerðina svokölluðu, en þar býr hann til stafróf fyrir íslenska tungu út frá latínustafrófi. Íslenskir skrifarar studdust sumir hverjir við reglur úr þessari ritgerð á næstu öldum.

Fyrsta málfræðiritgerðin og Íslendingabók Ara fróða eru tvö elstu varðveittu vísindaritin á norrænu tungumáli.

 

Á síðari hluta 12. aldar voru þýddar úr latínu sögur af helgum mönnum og um sömu mundir hófst ritun konungasagna á norrænu.

Hinar eiginlegu Íslendingasögur komu fyrst fram eftir 1200, en þær segja frá landnámsmönnum og afkomendum þeirra. Elstu varðveittu handritabrot þeirra eru frá síðari hluta 13. aldar.

Um 1200 komu einnig fram sögur af samtímaviðburðum, biskupasögur og Sturlungasaga, en einnig voru ritaðir ýmsir alfræðitextar og annálar, stuttorðar bækur sem greindu frá helstu stórviðburðum frá ári til árs.

 

Lög voru fyrst skráð á Íslandi um 1117. Elsta lagasafn Íslendinga, Grágás, er varðveitt í tveimur handritum frá því um 1250-1270, en Grágás geymir lög frá tíma þjóðveldis á Íslandi.

Vel á annað hundrað handrita hafa varðveist af Jónsbók, sem geymir lög frá því eftir gerð gamla sáttmála um 1262-64. Mörg þeirra handrita eru fagurlega skreytt.

 

Yfirleitt voru aðeins lagahandrit og trúarrit myndskreytt, en flest önnur handrit voru skrautmyndalaus.

 

Lítil skinnbók frá síðari hluta 13. aldar, Konungsbók Eddukvæða, er eitt merkasta handrit norrænna þjóða, en hún varðveitir mikinn hluta forns kveðskapar þeirra, auk goðafræði. Í henni er t.d. að finna Hávamál og Völuspá.

 

Á 14. öld voru fornaldarsögur og riddarasögur vinsælar, en þær gerast í fjarlægum löndum. Út frá þeim voru ortar rímur eða frásöguljóð.

Þá og síðar ortu menn og skrifuðu upp andleg kvæði, flest um Maríu guðsmóður og helga menn eða dýrðlinga.

 

*

 

Óvíst er hver helstu tímabil tiltekinna bókmenntagreina voru á Íslandi, þótt fræðimenn geti gert sér nokkrar hugmyndir um helstu tímaskeiðin út frá bæði fjölda varðveittra handrita og vitnesku sem þar er að finna um glötuð rit. Almennt er talið að blómaskeið óskráðra bókmennta hafi verið á tímabilinu 800-1100, en að þá hafi blómaskeið sagnaritunar tekið við og staðið til um 1350, en að loks hafi verið blómaskeið rímna og sagnadansa til um 1550.

 

Greinilegt er að Íslendingar voru mikil bókaþjóð þegar á miðöldum. Þeir fylgdust vel með því sem var að gerast annars staðar í Evrópu og er getið í ýmsum skrifum sem heimildamanna um sögur og atburði víða um álfuna.

 

Íslendingar eru einnig taldir hafa skrifað bækur til útflutnings, en sá útflutningur lagðist af á 14. öld, er norræn tungumál höfðu þróast hvert frá öðru og íslenskan var ekki lengur jafn auðlæsileg í öðrum norrænum löndum og verið hafði.

 

Flest íslensk handrit voru skrifuð á bókfell allt fram um 1600, en þá leysti pappírinn skinnið af hólmi. Það hafði gerst mun fyrr í Evrópu.

 

Íslensk skinnhandrit hafa það sérkenni að í þeim hefur blekið varðveist furðuvel og er enn skýrt og vel læsilegt. Talið er að blek hafi fyrst og fremst verið unnið úr sortulingi, en engar uppskriftir af því hafa varðveist.

 

Þá eru íslensk miðaldarit einstæð vegna hinnar óvenjulegu blöndu rómansks og gotnesks skreytingarstíls sem þar er að finna, en sá stíll hélst út nánast allan blómatíma íslenskra handrita.

 

Gríðarlega mikið hefur glatast af skrifum Íslendinga frá miðöldum, e.t.v. ekki hvað síst eftir siðaskiptin um 1550, en þá misstu kaþólsk trúarrit gildi sitt og má ætla að þeim hafi verið fargað í stórum stíl.

Þá hefur einnig harla lítið varðveist af kveðskap, sem vitað er að hafi tíðkast, svo sem nýðvísur eða háðsvísur, mansöngkvæði og vinnuljóð, hátíðarkvæði og galdravísur.

 

* * * * *

 

Konungsbók Eddukvæða

Mestöll vitneskja okkar um norræn goð og norrænan skáldskap er fengin úr íslenskum fornritum, einkum Eddukvæðum og Snorra Eddu.

Eddukvæði eru forn goða- og hetjukvæði eftir ókunna höfunda. Flest eru þau talin vera norsk og íslensk í núverandi mynd og frá tímabilinu 700-1300, þó aðallega frá 10.- 12. öld.

Eddukvæði eru varðveitt í íslenskum handritum, einkum Konungsbók Eddukvæða frá s.hl. 13. aldar og AM 748, 4to frá upphafi 14. aldar.

Goðakvæðin virðast norræn og eiga sér ekki hliðstæðu utan norður-germanskra svæða. Þau eru aðalheimild okkar um norður-germönsk trúarbrögð og goðafræði. Til goðakvæða teljast t.d. Völuspá og Hávamál.

 

Völuspá

Kvæðið er af flestum talið vera samið á Íslandi um 1000. Það er varðveitt í Konungsbók (Sæmundar Eddu), Hauksbók og Snorra Eddu. Þetta er heiðið kvæði, en er þó undir kristnum áhrifum í geymd sinni.

Völuspá geymir myndrænan goðsögulegan fróðleik, sem fræðimenn segja að gefi betri heildarsýn af goðatrú en annað sambærilegt efni.

Kvæðið er lagt í munn völvu, sem sér jafnt fram sem aftur í tímann. Hún segir Óðni frá sköpun heims og lífs, rekur örlagasögu goðanna og siðspillingu þeirra og manna. Hún spáir ragnarökum, en síðan nýjum heimi og endurbornu lífi.

 

Hávamál

Kvæðið er af flestum talið vera samið á tímabilinu 700-1300, en alls óvíst hvar, trúlega þó að mestu í Noregi og á Íslandi. Varðveitt í Konungsbók (Sæmundar Eddu).

Hávamál merkir Óðinsmál. Erindin geyma margs konar heilræði og lífsspeki, sem talin er mótuð af hugsunarhætti víkingaaldar. Þau fjalla að mestu um aðstæður og umhverfi manna, mannlegt hátterni og eiginleika, bæði æskilega og óæskilega.

Hávamál skiptast í 6 hluta, þ.e. gestaþátt, meyjaþátt, Gunnlaðarþátt, Loddfáfnismál, rúnatal og ljóðatal.

 

Snorra Edda

Mestöll vitneskja okkar um norræn goð og norrænan skáldskap er fengin úr íslenskum fornritum, einkum Eddukvæðum og Snorra Eddu.

Snorra Edda er skrifuð af Snorra Sturlusyni (f. 1178, d. 1241) um eða uppúr 1220. Hún geymir goða- og skáldskaparfræði. Snorri er talinn hafa ætlað bókina sem kennslubók í skáldskap, en í henni er m.a. að finna fjölmörg skáldskaparheiti og kenningar. Snorra Edda er ein fullkomnasta heimild okkar um skáldskap 10.- 12. aldar, en auk Eddukvæða er hún einnig ein helsta heimild norrænna / germanskra þjóða um heiðin trúarbrögð og goðsagnir.

Bókin skiptist í fjóra hluta, formála, Gylfaginningu, Skáldskaparmál og Háttatal. Formálann má líta á sem eins konar heimspekilegan inngang að verkinu, en þar er kristni rakin til fornrar dýrkunar á náttúrunni.

Aðalhandrit Snorra Eddu eru fjögur, skinnbækurnar Konungsbók Snorra Eddu og Uppsalabók og Ormsbók og pappírshandritið Tektarbók frá um 1600.

 

Konungsbók Snorra Eddu (GKS 2367 4to.)

Skinnhandrit, ritað snemma á 14. öld.

Snorri studdist við erlendar bækur, bæði í guðfræði og skáldskaparmennt. Fer þó með hugtök á mjög frjálslegan hátt að sögn fræðimanna.

Bygging verksins er áþekk alkunnum námsbókum á síðari hluta 12. aldar, þar sem lærisveinn spyr meistara sinn og spurningar og svör eru skráð.

 

Fyrsta málfræðiritgerðin

Ritgerðin er talin skrifuð á tímabilinu 1125 - 1175 af greinilega vel menntuðum íslenskum fræðimanni. Hún er með elstu þekktu vísindaritum á norrænu. Ritgerðin er merk heimild um hljóðkerfisbreytingar í germönskum tungumálum. Varðveitt í Edduhandriti frá um 1350.

 

Íslenska hómilíubókin

Íslenska hómilíubókin er með elstu ritum sem skrifuð voru á þáverandi tungu landsins, norrænu. Í henni er að finna þýðingar helgar, sem trúlega voru predikanir eða skýringar og útleggingar texta úr helgiritum á latínu.

Bókin er varðveitt í Stokkhólmi.

 

Leturgerð

Karlungaletur. Nokkrar rithendur, sjö ef ég man rétt.

 

Ég á óinnbundið ljósprent af íslensku hómilíubókinni, sem ég nota örk fyrir örk þegar ég er að æfa skriftir úr bókinni.

Þar er einnig að finna stafréttan texta. Fyrir Íslendinga er því ekki mikill vandi að lesa þetta rit, en slatti af orðum eru okkur í dag ókunnug.

 

Alfræðirit

 

Hauksbók

Hauksbók er safnrit frá um 1302-1310. Í því er m.a. að finna Landnámabók, Trójumannasögu, Kristnisögu, Völuspá, Fóstbræðrasögu, Eíríks sögu rauða, alfræðiefni úr Etymologiae eftir Ísidór frá Sevilla (uppi um 560-636) og norrænar þýðingar á guðfræðiritinu Elucidarius eftir Honorius Augustodunensis (1075/80 - um 1156).

 

Lýsingar stældar úr náttúrufræðiritinu Physiologus (ævafornt, 1. öld?) og þýsku 15. aldar handriti.

 

Biskupasögur

Biskupasögur koma fyrst fram um 1200.

 

Sjálfsagt voru þær fyrst og fremst ritaðar í þeim tilgangi að safna sögum um helgi biskupa sem reyna átti að fá tekna í tölu dýrðlinga.

 

Úr biskupasögum er hægt að lesa um daglegt líf fólks á miðöldum.

 

Heilagra manna sögur

 

Grágás

Samkvæmt Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar (f. 1068, d. 1148) voru lög fyrst færð í letur á Íslandi veturinn 1117-1118. Sú lögbók var síðar nefnd Hafliðaskrá, en hún er löngu týnd. Líkur hafa verið leiddar að því að meginefni Hafliðaskrár komi fram í varðveittum handritum þjóðveldislaganna íslensku sem einu nafni nefnast Grágás.

Grágás geymir að mestu lög um kristna trú (lögtekin um árið 1000) og veraldlegan rétt.

Elsta brot Grágásar er frá síðara hluta 12. aldar og er með allra fornlegustu handritum sem til eru hér á landi. Aðalhandritin, Konungsbók Grágásar og Staðarhólsbók Grágásar, eru að líkindum frá lokum þjóðveldisins (stóð 930-1262-1264), trúlega skrifuð um og eftir miðja 13. öld.

Í henni eru tvær lagaskrár, sú fyrri Grágás, en seinni lagaskráin nefnist Járnsíða.

Þorri lagasafna Grágásar er talinn skrifaður 1271-72, væntanlega í þeim tilgangi að bera þau saman við ný lög sem Íslendingar áttu von á frá Noregi í kjölfar gamla sáttmála 1262-1264. Sjá Jónsbók.

(Heimild: Stofnun Árna Magnússonar)

Leturgerð og útlit

Textinn í Staðarhólsbók er tvídálka.

Meginhluti ritaður af tveimur skrifurum, annar þeirra skrifaði langmest.

Rithendur níu annarra skrifara koma fyrir á 14 smápóstum á víð og dreif innan um texta aðalskrifarans.

Járnsíða er öll rituð af einum skrifara sem ekki hefur átt neinn þátt í ritun Grágásar og hefur Járnsíðu augsýnilega verið aukið aftan við Grágásarhandritið eftir að ritun þess var lokið.

 

Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar

Varðveitt handrit af Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar eru pappírshandrit frá 16. eða 17. öld (ATH).

 

Leturgerð

Leturgerð Íslendingabókar er einföld og falleg, auk þess sem fljótlegt er að skrifa hana.

 

Landnáma

 

Íslendingasögur

 

Egils saga

 

Njáls saga

 

Grettis saga

 

Laxdæla saga

 

Íslenska teiknibókin

Eina íslenska myndabókin sem varðveist hefur frá miðöldum er Íslenska teiknibókin, sem talin er vera frá 14. eða 15. öld. Þetta er greinilega fyrirmynda-bók, þ.e. hún var notuð til að afrita myndir upp úr fyrir ný handrit.

 

Íslenska teiknibókin eftir Björn Th. Björnsson, gefin út í Kaupmannahöfn árið 1954,  er einhver skemmtilegasta bók sem ég hef eignast. Mér skilst að Björn sé listfræðingur, en mér sýnist hann ekki síður hafa verið vandaður fræðimaður um handrit okkar.

 

Selma Jónsdóttir

 

Sjá líka Handritaspjall eftir Jón Helgason, útgefin í Reykjavík árið....

Ég held að það hafi endanlega verið sú bók sem atti mér út í skriftirnar af alvöru. Mögnuð bók, vel unnin, gott kennslugagn.

 

Báðar þessar bækur eru nú ófáanlegar nema ef vera kynni í fornbókaverslunum. Ég mæli eindregið með þeim.

 

Jónsbók

Lagasafnið Jónsbók tók við af Grágás þegar Íslendingar fengu ný lög í kjölfar Gamla sáttmála 1262/64.

Varðveitt eru vel á annað hundrað handrit af Jónsbók, sum hver ríkulega myndskreytt.

 

Leturgerðir

 

Ég á ljósprent af Skarðsbók Jónsbókar innbundinni, en mér þykir óþægilegt að nota þá bók við stælingar á leturgerð.

Gott er að taka bara ljósrit af einni og einni síðu til að vinna upp úr, í stað þess að láta þessa risastóru og níðþungu bók liggja á borðinu.

 

Stundum er nauðsynlegt að skoða fleiri en eina blaðsíðu til að finna á endanum góðar útgáfur af öllum stafagerðum hvers handrits, hvað þá stóru stafina.

 

Konungasögur

Blómatími konungasagna hér á landi var á tímabilinu 1185 - 1235.


Fyrst er vitað að Sæmundur fróði (f. 1056, d. 1133), gerði rit á latínu um ævi Noregskonunga, nú glatað. Einnig ritaði Ari fróði Þorgilsson (f. 1067, d. 1148) ágrip um ættir og ævi norrænna og enskra konunga, en það er nú einnig glatað nema sem uppistaða í ritum síðari tíma höfunda. Í kjölfar Sæmundar og Ara fylgdu margir sem skrifuðu um norræna konunga, flestir Íslendingar.

 

Heimskringla

Ritun konungasagna nær hámarki um 1220-25 með skrifum Snorra Sturlusonar (f. 1178, d. 1241), sem þá setti saman Heimskringlu. Aðalhandrit Heimskringlu eru Kringla frá um 1260, skinnbókarbrot frá um 1300, Jöfraskinna frá byrjun 14. aldar og Frísbók, skrifuð um 1300-1325, en hún er heillegasta varðveitta skinnhandritið af Heimskringlu.

 

* * * * *

 

 

 

>>> Evrópsk miðaldahandrit

 

 

 

Njáluhandrit

bundið í mjúka kápu